25.3.2021 | Buiness Central

Erum við nógu snjöll?

advania colors line
Einar Þórarinsson framkvæmdastjóri viðskiptalausna Advania

Það er áhugavert að velta því upp hve margt eigi eftir að breytast í heiminum þegar fólki hefur verið rétt einföld tól til að smíða lausnir sem auðveldar dagleg störf þeirra.


Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri viðskiptalausna Advania, skrifar:

Skömmu fyrir síðustu aldarmót tók nýsjálenski vísindamaðurinn James Flynn eftir því að árangur einstaklinga á stöðluðum greindarprófum hafði hækkað í öllum löndum yfir 60 ára skeið. Margar tilgátur hafa verið settar fram um hvernig á því stendur, svo sem bætt heilsa, næring, aukið aðgengi að menntun og bætt almenn lífsskilyrði. Ein af þeim rannsóknum er Raven’s Progressive Matrices sem mælir greind okkar og svokallað abstract reasoning. Frá 1942 hefur skor fólks á því prófi hækkað að meðaltali um 14 punkta. Á einföldu máli segir þetta okkur að almenn greind fólks hafi aukist jöfnum skrefum og hefur þetta verið nefnt Flynn Effect. Inn á þetta er komið í bókinni Range: Why Generlists Triumph in a Specialized world. Þar er fjallað um að geta fólks til abstrakt hugsunar hafi aukist, að fólk hafi öðlast aukna hæfni til að nýta reynslu af úrlausn vandamála til að leysa önnur vandamál.


Með þessa þróun í huga er áhugavert að velta fyrir sér hvað gerist þegar þessar framfarir eiga sér stað samhliðata tækniþróun síðustu ára. Þá sérstaklega þeim tólum og tækjum sem tæknirisarnir stóru (Google, Microsoft, Amazon og fleiri) færa einstaklingum og fyrirtækjum til að skapa snjallar lausnir. Almennt eru þetta kölluð "Low code" eða "No code" verkfæri sem ganga út á að einstaklingar án forritunarþekkingar taka þessi verkfæri í notkun og búa til öpp eða hugbúnað til lausnar á vandamálum sem þeir þekkja vel. Öryggisvörðurinn Samit, sem Andri Már fjallaði um á dögunum, er glöggt dæmi um þetta. Þeir sem nýta sér verkfærin eru jafnan kallaðir Citizen Developers (snjallar íslenskar þýðingar yfir þessi hugtök óskast).

 

Hjá Microsoft hafa þessar lausnir verið markaðsettar undir heitinu Power Platform sem Gunnar Örn skrifaði góða grein um nýlega. Power Platform er sérstaklega áhugavert fyrir íslensk fyrirtæki sem eru í óða önn að nýta sér skýjalausnir Dynamics 365 (t.d. Business Central eða Finance). Fólk getur nýtt viðskiptagögn fyrirtækja til að búa til lausnirnar sjálft, hvort sem er til að flýta fyrir skráningum, fylgjast með virkni eða hanna einfaldar uppflettingar. Þannig gæti sá sem sér um þjónustumálin búið til flæði sem lætur vita þegar nýr viðskiptavinur er stofnaður og boðið hann velkominn í viðskipti. Verslunarstjóri getur sjálfur hannað flæði sem fer í gang þegar verslun er gerð upp í lok dags og sendir sjálfkrafa út yfirlit yfir sölu dagsins.

 

Dæmin um þetta eru endalaus og fjölgar hratt þessa dagana hjá íslenskum fyrirtækjum. Við hjá Advania höfum gert Business Central lausnir fyrir íslenskan markað aðgengilegar á Appsource. Þannig greiðum við leið íslenskra fyrirtækja og starfsfólks þeirra til að nýta Power Platformið.

 

Það verður spennandi og fróðlegt að sjá hvernig sífellt snjallara starfsfólk tekur verkfærin í sínar hendur sem áður voru eingöngu á forræði tölvudeilda og þjónustuaðila, og einfaldar sér dagleg störf.


TIL BAKA Í EFNISVEITU