29.4.2021 | Fréttir

Bætt afkoma hjá Advania

advania colors line
Framkvæmdastjórn Advania (frá vinstri) Einar Þórarinsson, Sigrún Ámundadóttir, Ægir Már Þórisson, Sigurður Sæberg Þorsteinsson, Jón Brynjar Ólafsson, Margrét Gunnlaugsdóttir og Hinrik Sigurður Jóhannesson.

Árið 2020 var gott ár í rekstri Advania þrátt fyrir þær óvenjulegu áskoranir sem heimsfaraldurinn hafði í för með sér. Tekjur fyrirtækisins drógust lítillega saman milli ára en afkoma batnaði verulega.

Í upphafi síðasta árs fékk Advania skyndilega ný og krefjandi verkefni upp í hendurnar. Vegna faraldursins þurftu vinnustaðir landsins aðstoð fyrirtækisins við að koma upp fjarvinnulausnum og heimatengingum. Advania var framhaldsskólum innan handar við að halda úti fjarnámi og aðstoðaði fyrirtæki og opinberar stofnanir við að auka stafræna þjónustu.


„Upplýsingatæknin reyndist órjúfanlegur þáttur í að halda samfélaginu gangandi og án hennar hefði atvinnulífið varla verið starfhæft. Mikið mæddi á framlínuþjónustu fyrirtækisins á árinu og var einhugur meðal starfsfólks um að standa þétt við bakið á viðskiptavinum okkar í gegum þessar miklu breytingar. Sérstaklega var ánægjulegt að sjá mörg ný fyrirtæki bætast í hóp þeirra sem nýta sér alrekstrarþjónustu Advania. Heimsfaraldurinn hafði hins vegar óhjákvæmleg áhrif á viðskiptavini okkar sem margir hverjir þurftu að fresta verkefnum og halda sér höndum. Eftir erfitt ár erum við ánægð með árangurinn,“ segir Ægir Már Þórisson forstjóri Advania.

Þrátt fyrir lækkun á heildartekjum á árinu þá skilaði fyrirtækið auknum rekstrarhagnaði. Þar spilaði inn í lækkun á ýmsum reglulegum kostnaði en ekki síður samstillt átak starfsfólks á þessum óvenjulega tíma.


  • Tekjur Advania námu 15,1 milljarði króna árið 2020 og drógust saman um 2% frá 2019.

 

  • Rekstrarhagnaður (EBIT) jókst um 29% milli ára, var 959 milljónir króna en 741 milljónir króna árið 2019.

 

  • Heildahagnaður hækkaði um 26% milli ára, var 614 milljónir króna en 486 milljónir króna árið 2019. 

 


TIL BAKA Í EFNISVEITU