3.6.2021 | Fréttir

Spjallmenni Play með gervigreind

advania colors line
spjallmennið Playfinn


Flugfélagið Play hefur innleitt spjallmennið Playfin til aðstoða viðskiptavini á netinu allan sólarhringinn. Spjallmennið býr yfir gervigreind og verður í stöðugri þróun. Stefnt er að því að með tímanum geti spjallmennið aðstoðað fólk við bókanir.

Spjallmennið Playfin hóf störf hjá flugfélaginu á dögunum þegar það opnaði fyrir sölu flugmiða. „Playfin veitir upplýsingar um félagið, flugferðir og hvernig bókunarflæðið okkar virkar. Hann svarar algengum spurningum sem vakna þegar fólk bókar sér flug og leiðbeinir um ýmsa hluti sem eðlilegt er að vefjist fyrir fólki, svo sem reglur um farangur, breytingar á flugum, börn sem eru ein á ferð, óléttar konur, COVID-19 og fleira,“ segir Hildur María Haarde, forstöðumaður þjónustu Play.

Advania aðstoðaði Play við innleiðingu spjallmennisins en það byggir á þaulreyndri lausn frá norska fyrirtækinu Boost.ai. Lausnin býr yfir svokallaðri samræðugreind og er hönnuð er til að veita viðskiptavinum mannlega upplifun með eðlilegu flæði í samtölum.

Hildur María segir spjallmennið í takt við stefnu félagsins um að veita stafræna þjónustu.
„Við fórum í þessa vinnu með Advania og Boost.ai því stefna okkar frá byrjun hefur verið stafræn þjónustuvegferð. Við verðum ekki með opna símalínu heldur er áhersla okkar á að veita viðskiptavinum okkar um allan heim hraða þjónustu á netinu, allan sólarhringinn. Það er algjör útgangspunktur hjá okkur að þjónustan sé hlý, hröð og persónuleg. Playfin hefur ríka þjónustulund og deilir okkar gildum enda hafa okkar þaulreyndu þjónusturáðgjafar búið hann til frá grunni og skrifað öll svörin hans.“

Engin takmörk eru fyrir því hvað Playfin getur spjallað við marga viðskiptavini á sama tíma.

Hildur María Haarde
Hildur María Haarde, forstöðumaður þjónustu Play.

„Playfin veitir fólki svör strax, án þess að það þurfi að bíða í lengi eftir aðstoð í síma. Hins vegar er mjög auðvelt að fá samband við þjónustuteymi ef erindin eru þess eðlis. Þegar fyrirspurnir berast utan opnunartíma, býður Playfin fólki að skilja eftir skilaboð í spjallglugganum til ráðgjafa sem hefur samband við fyrsta tækifæri,“ segir Hildur María.

Hún bendir á að spjallmennið sé í stöðugri þróun. „Með tímanum mun Playfin eflast og skilja fleiri orðasambönd. Við stefnum á að í framtíðinni geti spjallmennið aðstoðað fólk við að bóka flug, bæta töskum við bókanir og velja sér sæti.“

Hildur María er sannfærð um að stafræn þjónusta á borð við spjallmenni séu framtíðin. „Fólk er almennt upptekið og hefur lítinn tíma til að bíða lengi eftir þjónustu fyrirtækja. Spjallmenni eru árangursrík leið til að eiga í samskiptum við viðskiptavini um algengar vangaveltur. Við sjáum líka að ungt fólk kýs þessa leið fyrst af öllum samskiptaleiðum við fyrirtæki.“
TIL BAKA Í EFNISVEITU